2 min read

Lærðu að stjórna hugsunum þínum

Til að gera breytingar á lífi þínu þarftu fyrst að læra að stjórna hugsunum þínum. Velja þær hugsanir sem henta þér, styrkja þig og efla á allan hátt. Það er talað um að 60.000 hugsanir fari í gegnum hugann okkar á hverjum degi. Flest okkar láta þessar hugsanir fara í gegn án þess að gefa þeim mikinn gaum. Við erum á sjálfsstýringu hugsana okkar - en staðreyndin er sú að það eru hugsanir okkar sem búa til tilfinningar okkar. Tilfinningarnar keyra síðan áfram allar okkar gjörðir og hegðun sem búa til niðurstöðurnar í lífið okkar. Við erum með hugsanir sem koma upp daglega og svo erum við með skoðanir og trú sem er ekkert annað en vel æfðar hugsanir, þ.e. hugsanir sem við höfum hugsað aftur og aftur í langan tíma þannig að við höldum að þær séu staðreynd.  

Við höfum fengið fullt af hugsunum frá foreldrum okkar þegar við vorum að alast upp sem við efuðumst aldrei um að væru annað en sannleikur. Þannig er það eins með fullt af hugsunum sem við erum að burðast með alla daga.  

Heilinn á okkur er til þess gerður að leita að hættum og halda okkur öruggum. Þess vegna á hann mjög auðvelt með að sýna okkur neikvæða mynd af hlutum. Það er það sem hann á að gera og það er ekki fyrr en við lærum hugsanastjórnun sem við getum farið að endurskrifa hugsanir sem hann býður okkur upp á og þjóna okkur ekki lengur í dag.  

Þetta er eitt það áhrifaríkasta sem mér hefur verið kennt í lífinu. Þegar ég opnaði faðminn fyrir þessu og fór að skoða hugarfarið mitt út frá þessari nálgun þá áttaði ég á mig á því að ég hef allan kraftinn innra með mér til að lifa því lífi sem ég vil. Ég þarf bara að læra að vinna með hugsanir mínar. Þetta eru einar bestu fréttir sem ég hef fengið á lífsleiðinni.  

 

Magasínið með Lindu Pé kemur á netfang áskrifenda á sunnudögum. Áskrift er ókeypis, smelltu hér til að skrá þigsvo þú missir ekki af næsta Magasíni.